bazaaroddsson.is

Veitingahúsið Haust

Veitingahúsið Haust, sem staðsett er inni í nýjustu viðbót Fosshótela, Fosshótel Reykjavík, hefur á örskömmum tíma öðlast miklar vinsældir, ekki bara vegna matarins heldur einnig fyrir staðsetningu og hönnun staðarins, sem hannaður er af Leifi Welding.

Við matseldina er notast við fersk íslensk hráefni, helst beint frá býli ef kostur er. Nafnið Haust var valið því að fegurð og ferskleiki íslenska haustsins, með allri sinni litadýrð er löngum vanmetin. Það jafnast fátt á við það að anda djúpt að sér á fallegum haustmorgni.

Haustið er líka sláturtíð og uppskerutíð. Því er leitast við að velja alltaf það hráefni sem er ferskast hverju sinni. Matargerðin sjálf er líka innblásin af náttúru Íslands og þeim hráefnum sem hún hefur upp á að bjóða. Hér er áhersla lögð á einfaldleika og úrvals hráefni er leyft að njóta sín eins og það kemur fyrir, án þess að verða að drekkja því flóknum kryddblöndum og yfirgnæfa upprunalegt bragð.

Á Haust er hægt að koma á morgunverðarhlaðborð alla daga frá kl. 6:30 til 10:00. Hádegishlaðborð er svo til staðar á virkum dögum og hið sívinsæla Brunch hlaðborð er í boði um helgar. Þar er meðal annars hægt að fá sér nauta carpaccio, safa og safaþeytinga, grilluð kjúklinga- og grænmetisspjót, allskonar salöt, egg Benedikt, alvöru amerískar pönnukökur, pastarétti og sérbakað bakkelsi sem bakað er á staðnum. Brunch hlaðborðið er opið allar helgar og helgidaga frá kl. 11:30 til 14:00.

Á kvöldverðarhlaðborðinu sem opið er öll kvöld vikunnar frá kl. 18:00 til 21:00, er að finna úrval ljúffengra rétta. Eldhúsið er svokallað opið eldhús, og hægt er að fylgjast með kokkunum leika listir sínar við framreiðslu og undirbúning réttanna. Hlaðborðið sjálft býður upp á eitthvað fyrir alla, súpu dagsins með heimabökuðu brauði, úrval salata úr íslensku grænmeti beint frá Eymundi í Vallarnesi, úrval fiskrétta og skelfisks, heilgrillað lambalæri, kjöt beint af grilli Hausts auk meðlætis og sósa, og veglegt eftirréttahlaðborð úr bakaríi staðarins. Vegan- og glútenlausir réttir eru einnig í boði.