bazaaroddsson.is

Þeir allra bestu!

Hér eru fimm bestu veitingastaðir landsins að okkar mati

1. Nostra

Því hefur oft verið fleygt fram að gæði matarins á þessum stað sem og þjónustulund starfsfólksins eigi skilið eina Michelin-stjörnu eða svo. Það verður enginn svikinn með komu á þetta skemmtilega veitingahús sem staðsett er á annarri hæð við Laugaveginn. Staðurinn er innréttaður í nútímalegum og litríkum stíl og fer aðrar leiðir en svo margir aðrir matsölustaðir sem eru farnir að verða heldur til einsleitir. Hér er einnig hægt að fá bestu hanastél sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.

2. ÓX

Leynistaður og hugarfóstur matreiðslumannsins Þráins Vigfússonar er með áherslu á öðruvísi íslenskan mat. Það eru aðeins örfá sæti sem setið er við á þessum litla stað sem skapar persónulega stemningu í kringum kokkana tvo sem elda í návist gestanna. Aðeins er hægt að bóka borð í gegnum netið og greitt er fyrirfram fyrir einstaka matarupplifun sem pöruð er með víni sem er innifalið í verðinu.

3. Slippurinn

Það ætti að vera næg ástæða að skreppa til Eyja aðeins til að gæða sér á ljúffengum mat sem Slippurinn hefur upp á að bjóða. Skemmtilega hrár staður við höfnina sem innréttaður er á skemmtilegan máta. Íslenskt og ferskt hráefni er í hávegum haft og er matseðillinn árstíðabundin sem og kokteilalistinn sem gerist varla íslenskari. Þessi staður er einn að þessum sem maður bara verður að heimsækja á lífsleiðinni.

4. Matur og Drykkur

Það er ekkert notalegra en að borða íslenskan alþýðumat eins og maður ólst upp við á æskuárunum. Hinsvegar er fátt skemmtilegra en að gæða sér á íslenskum mat sem hefur verið uppfærður og betrumbættur og það hefur Matur og Drykkur einmitt gert svo listilega vel. Hér gengur maður út saddur og sæll.

5. Norð Austur

Þessi litli staður á hjara veraldar býður upp á heimsklassa Sushi. Með fersku íslensku hráefni og virðingu fyrir japönskum hefðum tekst þeim svona einstaklega vel til. Það borgar sig að bóka borð fyrirfram.